Upplýsingar til ritrýna

Um ritrýni

Ritrýni í Tímariti um viðskipti og efnahagsmál er tvíblind, þ.e. höfundum og ritrýnum er ekki kunnugt um nöfn hverra annarra.

 

Nánar um ritrýni

Ritrýni byggir á trausti og ritrýnir skal hafa það hugfast að handritið sem hann ritrýnir er trúnaðargagn. 

Tímarit um viðskipti og efnahagsmál treystir á fræðilega dómgreind ritrýna til þess að velja og bæta vísindagreinar til birtingar.

Ritrýnar skulu skila athugasemdum sínum í tvennu lagi. Annars vegar stutt bréf til ritstjóra þar sem hæfi viðkomandi greinar til birtingar er metið. Hins vegar lengra og nákvæmara bréf til höfundar um tillögur, mögulegar úrbætur og svo framvegis. Ritrýnir skal helst hafa lokið verki sínu innan 4 vikna.

 

Bréf til ritstjóra

Þegar hæfi greinar er metið í bréfi ritrýnis til ritstjóra, skal hugað að frumleika hennar og framlagi til núverandi þekkingar. Ennfremur, djúphygli, nákvæmni og skýrleika fræðilegrar umfjöllunar og hve mikið vísindalegt gildi greinin hefur í heild sinni.

Matið ætti að miða við fjóra möguleika.

  1. samþykkt greinarinnar til birtingar.
  2. samþykkt greinarinnar með minniháttar breytingum (höfundar skilgreini hvaða breytingar eru gerðar).
  3. töluverðra breytingar er krafist, höfundur skilar inn nýrri grein til ritrýni til sömu ritrýna.
  4. hafna greininni alfarið til birtingar.

 

Athugasemdir til greinarhöfunda(r)

Sú ritrýni sem fer til greinarhöfundar á að vera nægilega nákvæm og skýr til þess að hann fái fullan skilning á gagnrýni, varnöglum og tillögum viðkomandi ritrýnis.

Athugasemdirnar eiga að vera eins uppbyggilegar og unnt er, jafnvel þó endanlegur dómur ritrýnis sé neikvæður. Einnig er hvatt til þess að ritrýnar komi með tillögur bætur og breytingar, jafnvel þó þeir telji greinina ekki hæfa til birtingar. Ágætt er að ritrýnir dragi megin niðurstöður sínar saman í upphafi en komi síðan með nákvæmari útlistanir og athugasemdir.

Hver ritrýnir er valinn með því augnmiði að hann hafi sérþekkingu á því sviði sem greinin fjallar um. Honum er fyrst og fremst ætlað að fara yfir fræðilegt innihald greinar og meta hvort einhvers staðar sé beygt af vegi í beitingu aðferða, hugmynda og líkana. Því næst að leggja fram tillögur um hvernig sé hægt að forðast bæði króka og keldur í fræðilegri umfjöllun. Loks, að koma með hugmyndir um hvernig að höfundur geti unnið betur og komist lengra áfram með það efni sem greinin fjallar um. Aukinheldur skal ritrýnir gefa almennri smíð greinarinnar gaum og gera athugasemdir og tillögur um skipulag, töflur, myndir og heimildatilvísanir og svo framvegis. Ritrýnar eru í þessu sambandi sérstaklega hvattir til þess að leggja til styttingar ef það getur gerst án þess að fræðilegt innihald rýrni.

Aftur á móti á dómur um birtingarhæfni ekki heima í athugasemdum til höfunda heldur á að koma fram í því áliti sem fer til ritstjóra sem tekur ákvörðun um framhaldið.

Stjórnin getur valið að fela ritstjóra að hafa umsjón með því að greinin verði búin til birtingar í samvinnu við höfund. Telst hlutverki ritrýna þá lokið.

Í þeim tilvikum þegar ritstjórn telur að greinin komi aðeins til birtingar eftir umtalsverðar lagfæringar þá sendir ritstjóri sendir greinina aftur til höfunda og síðan á ný til ritrýna þegar höfundar hafa brugðist við athugasemdum þeirra. Ritrýnar meta þá greinina á ný og er hún að því loknu aftur lögð fyrir ritritstjórn.

Loks getur ritstjórn ákveðið að hafna greininni alfarið til birtingar. Höfundar fá þá athugasemdir í hendur en ritstjórn og ritrýnar munu ekki huga frekar að henni.

 

Verklag við úrbætur

Þegar grein hefur borist til baka frá báðum ritrýnum eru niðurstöður kynntar fyrir ritstjórn.