Tíðni kulnunareinkenna og skýringar á kulnun starfsfólks í háskólum á Íslandi

Höfundar

##doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2024/19

Lykilorð:

kulnun, kulnunarröskun, háskólar, álag, streita

Útdráttur

Erlendar rannsóknir sýna að háskólakennarar upplifa mikið álag í starfi og að tíðni kulnunareinkenna meðal þeirra er há, ekki síður en hjá kennurum annarra skólastiga. Hér á landi hafa kulnunareinkenni meðal háskólakennara ekki verið rannsökuð áður, en í starfsumhverfiskönnun Háskóla Íslands segjast 80% akademískra starfsmanna upplifa mikið vinnuálag. Kulnunareinkenni, svo sem örmögnun, hugræn og tilfinningaleg skerðing, og skyn-, hjartsláttar-, og meltingartruflanir, eru afleiðing langvarandi vinnuálags og ofvirkni streitukerfa líkamans. Séu kulnunareinkenni mikil og langvinn skapast hætta á kulnunarröskun sem er alvarleg og kostnaðarsöm fyrir einstaklinga og samfélag. Í þessari rannsókn var tíðni kulnunareinkenna metin með netkönnun meðal félagsfólks í Félagi háskólakennara og Félagi prófessora við ríkisháskóla, N = 624. Tíðni kulnunareinkenna og líkur á kulnunarröskun voru metin með íslenskri útgáfu skimunarlistans Burnout Assessment Tool. Þá svöruðu þátttakendur spurningum um vinnuálag og félagslegan stuðning á vinnustað. Niðurstöður sýna að 36% svarenda eru í mikilli eða mjög mikilli hættu á kulnunarröskun, en að tíðni og alvarleiki einkenna fari eftir stöðu innan háskólanna. Doktorsnemar eru í sérlega mikilli hættu á kulnunarröskun, en starfsfólk sem ekki sinnir kennslu er í minni hættu. Konur og yngri svarendur mælast með tíðari einkenni en karlar og eldri svarendur. Vinnuálag mælist mjög mikið hjá akademísku starfsfólki og álag hefur sterk tengsl við tíðni kulnunareinkenna. Félagslegur stuðningur á vinnustað er mestur hjá stjórnsýslustarfsfólki og hefur neikvæð tengsl við tíðni einkenna. Það er mat höfunda að háskólayfirvöldum beri að taka þessar niðurstöður alvarlega og koma á forvörnum með því markmiði að minnka vinnuálag á akademískt starfsfólk háskóla og draga þar með úr líkum á kulnun.

 

Um höfund (biographies)

  • Ragna Benedikta Garðarsdóttir, Háskóli Íslands - Heilbrigðisvísindasvið

    Ragna Benedikta Garðarsdóttir (rbg@hi.is) er prófessor í félagssálfræði við Sálfræðideild Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 1995, MSc-prófi í félagssálfræði frá London School of Economics 1997 og doktorsgráðu í félagssálfræði frá University of Sussex 2005. Hún hefur stundað rannsóknir á áhrifum samfélagslegra þátta á líðan, hugsun og hegðun einstaklinga.

  • Helga Eden Gísladóttir

    Helga Eden Gísladóttir (heg89@hi.is) lauk BS-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 2022 og stundar nú meistaranám í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands þar sem hún undirbýr meistaraverkefni um sjálfsvígsforvarnir. Helga starfar sem ráðgjafi á geðsviði Landspítalans.

  • Þórhildur Guðjónsdóttir

    Þórhildur Guðjónsdóttir (thg168@hi.is / thorhildurgud@gmail.com) lauk BS-prófi í sálfræði árið 2022 og MS-prófi í klínískri sálfræði árið 2024 frá Háskóla Íslands. Í MS-verkefni sínu rannsakaði hún algengi ADHD-einkenna meðal fullorðinna hérlendis ásamt tíðni ADHD-greininga og lyfjanotkunar. Hún starfar nú sem sálfræðingur hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í Geðheilsuteymi HH vestur

  • Linda Bára Lýðsdóttir, Háskólinn í Reykjavík - Sálfræðideild

    Linda Bára Lýðsdóttir (lindabl@ru.is) er lektor og forstöðumaður MSc-náms í klínískri sálfræði við Sálfræðideild Háskólans í Reykjavík. Hún lauk BA-gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands 1994, Drs gráðu í klínískri sálfræði frá University of Amsterdam 1998 og doktorsprófi í líf- og læknavísindum frá Háskóla Íslands 2019. Hún hefur stundað rannsóknir á almennum geðröskunum.

Niðurhal

Útgefið

2024-12-16

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar