„Það er enginn aðgerðalaus í skólastofunni hjá mér“

Ásta Egilsdóttir leik- og grunnskólakennari

Höfundar

##doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2023.4

Lykilorð:

fagmennska, framsækni í skólastarfi, fjölbreytni, viðbragðssnjall kennari, áhersla á virkni nemenda og ábyrgð í námi, Ásta Egilsdóttir

Útdráttur

Hér er greint frá störfum leik- og grunnskólakennarans Ástu Egilsdóttur, kennara sem vann af fagmennsku og miklum áhuga á að skoða starf sitt og ígrunda það í þeim tilgangi að vera stöðugt að bæta það og þróa. Ásta starfaði lengst af við Grundaskóla á Akranesi. Hún þótti ná vel til nemenda með fjölbreyttum viðfangsefnum sem vöktu áhuga þeirra. Í greininni er fjallað um á hvern hátt kennarinn Ásta styrkti fagmennsku sína. Eigindlegar rannsóknaraðferðir voru notaðar og gagna aflað með viðtölum við Ástu en auk þess var gerð skjalarýni á fjölbreyttum gögnum sem hún hefur skráð um kennslu sína og nám nemenda, svo sem kennsluáætlunum, sögum og ljósmyndum úr skólastarfi. Unnið var úr gögnunum í samráði við Ástu þar sem megináherslur hennar í starfi eru hafðar til hliðsjónar. Hún hefur ávallt haft það að markmiði að enginn sé aðgerðalaus í skólastofunni. Í því fólst áhersla á virkni nemenda í eigin námi út frá áhuga og getu hvers og eins, ásamt ábyrgð, um leið og námið og kennslan samræmdist hæfniviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla. Valin voru þrjú af meginviðfangsefnum Ástu í kennslu sem sýna fagmennsku hennar og framsækið skólastarf. Þau eru eftirfarandi: Nám og kennsla með einingakubbum (e. unit blocks); Sjónrænt skipulag – stundatafla og bekkjarreglur; Námsstöðvar og virkni nemenda í námi. Birtar eru sögur og myndir úr skólastarfi hjá Ástu sem sýna dæmi um hvernig hún skipulagði nám nemenda og kennslu með hliðsjón af megináherslum sínum og leitaðist við að tengja þau kennslufræðilegri umræðu. Dæmin sýna vel að Ásta var viðbragðssnjall kennari sem bar virðingu fyrir nemendum sínum með því að bregðast við hugmyndum þeirra í kennslustofunni. Hún nýtti slík tækifæri til lærdóms innan ramma námskrár.

Um höfund (biography)

  • Jóhanna Karlsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

    Jóhanna Karlsdóttir (johannak@hi.is) er lektor emerita í kennslu- og menntunarfræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1972, framhaldsnámi í byrjendakennslu og myndmennt frá Danmarks Lærerhøjskole árið 1989 og M.Ed.-prófi í menntunarfræðum frá Kennaraháskóla Íslands árið 2001. Rannsóknir hennar beinast einkum að kennslufræði, menntun án aðgreiningar, fjölbreytileika nemenda, sögum kennara um nám fyrir alla og árangursríka kennslu.

Niðurhal

Útgefið

2023-12-31