Prófadrifin kennsla og umhyggja fyrir stærðfræðinámi

Höfundar

##doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2023/21

Lykilorð:

próf, umhyggja, stærðfræðikennsla, einkunnir

Útdráttur

Í íslenskum framhaldsskólum taka nemendur iðulega mörg próf í sínum stærðfræðiáföngum, bæði hlutapróf og lokapróf, auk þess sem þeir skila öðrum verkefnum sem gilda til lokaeinkunnar. Nemendur og kennarar eru oft mjög uppteknir af þessu prófahaldi. Nemendur hafa áhyggjur af árangri sínum á prófum og kennarar verja miklum tíma í að undirbúa og fara yfir próf. Ég ræði og greini slíka prófadrifna stærðfræðikennslu frá heimspekilegu sjónarhorni sem nefnist umhyggja fyrir stærðfræðinámi. Það sjónarhorn byggir á að leiða saman hugmyndir um stærðfræðikennslu sem umhyggju fyrir nemendum og umhyggju fyrir stærðfræði, auk umhyggju fyrir samfélaginu í heild. Markmið rannsóknarinnar er að setja fram og nota slíkt siðferðislegt sjónarhorn til að gagnrýna námsmatvenjur í stærðfræðikennslu. Ég set fram og túlka átta stuttar atvikasögur úr eigin stærðfræðikennslu í íslenskum framhaldsskólum sem tengjast prófum og einkunnagjöf. Sögurnar varpa ljósi á hvað umhyggja fyrir stærðfræðinámi felur í sér og hvaða möguleikar eru til að iðka slíka umhyggju í prófadrifinni kennslu. Sögurnar draga einnig fram „þrefalda togstreitu“ sem stærðfræðikennarar þurfa að takast á við í starfi sínu: Í fyrsta lagi að reyna að mæta þeim þörfum sem nemendur tjá og rækta tengsl við þá, í öðru lagi að hafa í heiðri gildi stærðfræðinnar um sannleiksleit og röksemdafærslur og í þriðja lagi að uppfylla kröfur skólakerfisins og samfélagsins um mælanlegan árangur af kennslunni. Niðurstöður mínar eru að prófadrifin kennsla hafa grafið undan umhyggju minni og nemenda minna fyrir stærðfræðinámi.

Um höfund (biography)

  • Ingólfur Gíslason, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

    Ingólfur Gíslason (ingolfug@hi.is) er aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann er með B.S.-gráðu og M.Paed.-gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands og lauk Ph.D.-gráðu í menntavísindum frá Háskóla Íslands 2023. Rannsóknaráhugi hans beinist einkum að orðræðu og samskiptum í stærðfræðinámi og -kennslu, verkefnahönnun, möguleikum forritunar og stærðfræðiforrita til að styðja merkingarbært stærðfræðinám, menntun stærðfræðikennara, tengslum stærðfræðimenntunar við samfélagsleg álitamál og hugmyndafræði, og sögu og heimspeki stærðfræðimenntunar.

Niðurhal

Útgefið

2023-12-31

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar