Reynsla kennara og annars fagfólks grunnskóla af aukinni áherslu á velferð nemenda með n´ámserfiðleika

The experiences of compulsory schoolteachers

Höfundar

  • Sigrún Harðardóttir Háskóli Íslands - Félagsvísindasvið https://orcid.org/0000-0002-2200-3216
  • Ingibjörg Karlsdóttir Landspítali
  • Margaret Anne Johnson Háskóli Íslands - Félagsvísindasvið

##doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2023/20

Lykilorð:

grunnskólakennarar, námserfiðleikar, vinnuálag, úrræði, faglegur stuðningur

Útdráttur

Velferð og farsæl námsframvinda nemenda hvílir að miklu leyti á herðum grunnskóla og því er mikilvægt að beina sjónum að því hvað þarf til að gera starfsfólki kleift að mæta fjölbreytilegum þörfum þeirra. Hér er sagt frá niðurstöðum rannsóknar á upplifun og reynslu kennara og annars fagfólks af kennslu og stuðningi við nemendur með námserfiðleika í grunnskólum sem hafa verið greindir með ADHD, einhverfu, almenna og sértæka námserfiðleika og tourette-heilkenni, auk nemenda sem glíma við tilfinninga- og félagslega erfiðleika. Rannsóknin er hluti af stærra rannsóknarverkefni um stuðning við grunnskólanemendur með námserfiðleika. Markmið rannsóknar var að kanna reynslu kennara og annars fagfólks af þeim áskorunum sem fylgja kennslu og stuðningi við nemendur með námserfiðleika. Rannsóknin var eigindleg og tekin voru átta rýnihópaviðtöl við fagfólk innan 19 grunnskóla sem sinnir nemendum í 3.–10. bekk. Alls tóku 49 einstaklingar þátt í rannsókninni. Í viðtölunum var leitast við að fá fram álit viðmælenda á helstu áskorunum sem þeir standa frammi fyrir í starfinu, hvað gengi vel og hvað þyrfti að bæta. Niðurstöður sýna að viðmælendur upplifðu ýmsar áskoranir sem fylgdu því að takast á við fjölbreytileikann í nemendahópnum í samræmi við ákvæði laga um nám og velferð nemenda. Auk þess kom fram að skortur er á úrræðum og aðstoð fagfólks með fjölbreytta sérhæfingu innan skóla. Að mati viðmælenda er þó margt vel gert. Í því sambandi kom til dæmis fram að kennurum fannst hafa gefist vel að geta gefið nemendum tækifæri til að blómstra í verklegum greinum með aukinni áherslu á þær greinar í stundatöflu. Þannig fengist hvíld frá bóklegu námi sem þau ættu yfirleitt í erfiðleikum með en þau gætu verið sterk í verklegum greinum, svo sem myndmennt, smíði og nýsköpun. Út frá niðurstöðunum má draga þá ályktun að brýn þörf sé á að bæta faglegan stuðning við starfsfólk skóla vegna nemenda með námserfiðleika

Um höfund (biographies)

  • Sigrún Harðardóttir, Háskóli Íslands - Félagsvísindasvið

    Sigrún Harðardóttir (sighar@hi.is) er dósent við Félagsráðgjafardeild Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í uppeldisfræði og félagsráðgjöf árið 1988, starfsréttindanámi í félagsráðgjöf árið 1989, námi í náms- og starfsráðgjöf árið 1993, uppeldis- og kennslufræði árið 1994, meistaraprófi í félagsráðgjöf (MSW) árið 2005, doktorsprófi í félagsráðgjöf árið 2014 og diplómanámi í kennslufræði háskóla árið 2017, öllu frá Háskóla Íslands. Auk þess lauk hún diplómanámi í faghandleiðslu frá University of Derby árið 2021. Rannsóknarsvið höfundar snúa að skólafélagsráðgjöf, sálfélagslegri líðan nemenda og úrræðum innan skóla.

  • Ingibjörg Karlsdóttir, Landspítali

    Ingibjörg Karlsdóttir (ingibjka@landspitali.is) er félagsráðgjafi MPH á Barna- og unglingageðdeild Landspítala. Hún lauk BA-prófi í uppeldisfræði og starfsréttindanámi í félagsráðgjöf árið 1989 frá Háskóla Íslands og meistaraprófi í lýðheilsufræði frá Háskólanum í Reykjavík 2012. Hún fékk sérfræðiréttindi í félagsráðgjöf á heilbrigðissviði 2014. Hún er höfundur bókarinnar ADHD og farsæl skólaganga ásamt meðhöfundi sem gefin var út af Námsgagnastofnun 2013. Rannsóknarsvið höfundar snúa að skólafélagsráðgjöf, börnum með námslegar og félagslegar áskoranir og áhrifum mataræðis og þarmaflóru á geðheilsu

  • Margaret Anne Johnson, Háskóli Íslands - Félagsvísindasvið

    Margaret Anne Johnson (maj32@hi.is) er framhaldsskólakennari og doktorsnemi í kynjafræði við Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í ensku frá Háskóla Íslands árið 2007, námi í uppeldis- og kennslufræði frá Háskóla Íslands árið 2008 og meistaraprófi í kynjafræði frá Háskóla Íslands árið 2018. Auk þess lauk hún diplómanámi í sérkennslufræðum frá University of Wollongong í Ástralíu árið 2011, diplómanámi í jákvæðri sálfræði frá University of East London 2017 og diplómanámi í faghandleiðslu frá University of Derby árið 2021. Rannsóknasvið höfundar snúa að orðræðu, kynjajafnrétti, margbreytileika og menntun.

Niðurhal

Útgefið

2023-12-31

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar