„Finnst ég aldrei standa mig og man ekki neitt“

Samviskubit, kvíði og skömm mæðra og feðra í tengslum við skóla- og tómstundavinnu barna

Höfundar

##doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2023/17

Lykilorð:

samstarf heimila og skóla, áköf mæðrun, einstaklingsvæðing foreldrahlutverksins, tilfinningar, tómstundastarf

Útdráttur

Hér og víða erlendis hefur krafa á aðkomu foreldra að skólagöngu og tómstundastarfi barna sinna farið vaxandi, en þessi síaukna áhersla virðist ekki hafa verið skoðuð og rædd með gagnrýnum hætti hérlendis. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða með hvaða hætti samviskubit, kvíði og skömm birtust hjá mæðrum og feðrum í tengslum við skólaog tómstundastarf barna þeirra. Lögð er áhersla á að skilja hvað þessi tilfinningalegu viðbrögð segja okkur um samfélagslegar aðstæður barnafjölskyldna. Gögnum var safnað með eigindlegri spurningakönnun þar sem foreldrar barna á aldrinum 0–18 ára voru beðnir um að lýsa tilfinningum sínum í tengslum við foreldrahlutverkið. Alls söfnuðust 374 svör frá mæðrum og 76 frá feðrum. Gögnin voru greind með aðferð ígrundandi þemagreiningar. Fyrra þema greiningarinnar var „Geri ég þetta rétt?“ Móðirin sem ábyrgðarmaður heimanáms og tómstunda. Þar greindu mæðurnar frá samviskubiti og kvíða í tengslum við skóla- og tómstundavinnu, svo sem heimalestur og æfingar. Feðurnir greindu mun síður frá slíkum tilfinningum á meðan mæðurnar lýstu samviskubitinu sem stöðugu. Svörin gáfu sterkar vísbendingar um að þær öxluðu mun meiri ábyrgð á skóla- og tómstundavinnu heldur en feðurnir. Seinna þemað nefndist Allir fjandans tölvupóstarnir: Mæður á þriðju vaktinni. Þar lýstu mæður þeirri hugrænu byrði sem þær þyrftu að axla vegna skóla- og tómstundavinnu sinnar og hvernig hún ylli þeim samviskubiti, kvíða og skömm. Einnig voru dæmi um slík svör frá feðrum en þau voru mun sjaldgæfari. Þessar niðurstöður eru settar í samhengi við hugmyndafræði ákafrar mæðrunar og einstaklingsvæðingu foreldrahlutverksins. Álag á mæðrunum hefur neikvæð áhrif á samskipti innan fjölskyldna og milli foreldra og fagfólks sem er andstætt hagsmunum barna og annarra fjölskyldumeðlima.

Um höfund (biography)

  • Auður Magndís Auðardóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

    Auður Magndís Auðardóttir (ama@hi.is) er lektor í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar fjalla allar á einn eða annan hátt um völd og valdatengsl. Hún leggur áherslu á að skilja félagslegan veruleika foreldra, einkum mæðra, á Íslandi með rannsóknum á tilfinningum tengdum foreldrahlutverkinu, þeim kröfum sem gerðar eru til mæðra og hvaða samfélagslegu afleiðingar þær hafa. Þá hef hún einnig rannsakað markaðshyggju í menntun og félagslegt réttlæti í menntakerfinu á Íslandi. Að auki hefur hún þekkingu og áhuga á hinsegin veruleika innan íslensks skólakerfis. Auður beitir einkum eigindlegum aðferðum í rannsóknum mínum, til að mynda viðtölum, orðræðugreiningu og eigindlegum spurningalistum.

Niðurhal

Útgefið

2023-12-14

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)