„Starfsþjálfun gerir deildina eftirsóknarverðari kost“: Reynsla af starfsþjálfun í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands

Höfundar

##doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2023.3

Lykilorð:

færni, menntun, starfsþjálfun, tengslanet, Viðskiptafræðideild, þekking

Útdráttur

Erlendar rannsóknir sýna að mikill ávinningur geti verið fyrir nemendur að fara í starfsþjálfun á því sviði sem þau eru að mennta sig til. Nemendur öðlist meiri færni og séu líklegri en aðrir til þess að fá starf að námi loknu og því sé mikill ávinningur fyrir nemendur að ljúka starfsþjálfun (Di Stasio, 2017; Galloway o.fl., 2014; Maertz o.fl., 2014; Masevi?i?t? o.fl., 2018; Silva o.fl., 2018). Þá benda Mgaya og Mbekomize (2014) á að ávinningur fyrir stjórnendur og fyrirtæki felist í öflugri tengslum við háskóla, að starfsþjálfun hafi jákvæð áhrif á ímynd fyrirtækja og að þau uppfylli samfélagslega ábyrgð með því að taka inn nemendur í starfsþjálfun. Fáar rannsóknir liggja fyrir um ávinning og áskoranir starfsþjálfunar á Íslandi en Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands hóf undirbúning að starfsþjálfun árið 2018 og hófst starfsþjálfun fyrir nemendur í grunnnámi og meistaranámi árið 2020. Frá þeim tíma hafa hátt í 100 nemendur lokið starfsþjálfun hjá yfir 40 félagasamtökum, fyrirtækjum, ráðuneytum og stofnunum. Markmið rannsóknarinnar var að skoða ávinning af starfsþjálfun og þær áskoranir sem nemendur og stjórnendur standa frammi fyrir meðan á starfsþjálfun stendur. Til þess að ná fram dýpri skilningi var eigindlegum rannsóknaraðferðum beitt og viðtöl tekin við 16 aðila, átta nemendur og átta stjórnendur, sem öll hafa reynslu af starfsþjálfun innan Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands.

Niðurstöður viðtala leiddu í ljós að bæði nemendur og stjórnendur töldu mikinn ávinning af starfsþjálfun og töldu að hún veitti nemendum dýrmæta reynslu sem nýta megi í atvinnulífinu að námi loknu. Nemendur töldu að starfsþjálfun á ferilskrá myndi auka líkur á ráðningu eftir brautskráningu þar sem flestir þeirra höfðu takmarkaða starfsreynslu af því sviði sem þau eru að mennta sig til. Stjórnendur töldu að ávinningur væri af því að fá inn nemendur með nýja og ferska sýn og að finna mögulega framtíðarstarfsmenn meðal nemenda. Þá voru stjórnendur ánægðir með að ná að tengja starfsemi sína við fræðasamfélagið með starfsþjálfun og vonuðu að starfsþjálfunin skilaði hæfari starfskröftum út í atvinnulífið.

Um höfund (biographies)

  • Ásta Dís Óladóttir, Háskóli Íslands - Viðskiptafræðideild
    Dr. Ásta Dís Óladóttir (astadis@hi.is) er dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Hún er umsjónarmaður starfsþjálfunar við Viðskiptafræðideild og hefur setið í nefnd á vegum rektors um starfsþjálfun við Háskóla Íslands. Ásta Dís hefur kennt við Háskóla Íslands, Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn (CBS), Háskólann í Reykjavík og var deildarforseti Viðskiptafræðideildar Háskólans á Bifröst. Hún býr yfir rúmlega 20 ára stjórnunar- og stjórnarreynslu í fyrirtækjum og stofnunum hér á landi og erlendis.
  • Eydís Anna Theodórsdóttir
    Eydís Anna Theodórsdóttir (eydisanth@gmail.com) kláraði grunnnám úr ferðamálafræði með markaðsfræði og alþjóðaviðskipti sem aukagrein árið 2019 frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í mannauðsstjórnun árið 2022 frá sama skóla. Hún vinnur sem sérfræðingur á mannauðssviði hjá Securitas.

Niðurhal

Útgefið

2023-03-15

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar