Samfélagsskýrslur fyrirtækja
DOI:
https://doi.org/10.24122/tve.a.2024.21.2.2Lykilorð:
Samfélagsskýrslur; samfélagsábyrgð; sjálfbærni; UFS.Útdráttur
Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja er mikið til umræðu um þessar mundir og hagaðilar vilja vera upplýstir um stöðu fyrirtækja í þeim efnum. Í þessari grein er fjallað um hvernig íslensk fyrirtæki upplýsa um stöðu sína í þessum málum og hvert þau stefna. Markmið rannsóknarinnar er að skoða samfélagsskýrslur íslenskra fyrirtækja til að öðlast skilning á því hvaða upplýsingar koma fram í þeim, um framsetningu gagna og frammistöðu fyrirtækjanna í þáttum sem snúa að umhverfi, samfélagi og stjórnarháttum (UFS þáttum). Í rannsókninni voru valdar 33 samfélagsskýrslur íslenskra fyrirtækja sem gefnar voru út árið 2021. Greint var hvaða gögn koma fram í samfélagsskýrslunum, hvað fyrirtækin gera vel og hvar megi bæta upplýsingagjöf. Rannsóknin leitaði svara við tveimur rannsóknarspurningum, annars vegar hvort samfélagsskýrslur væru staðlaðar, samanburðarhæfar og staðfestar af utanaðkomandi aðilum og hvernig fyrirtækin standa að þessum atriðum. Hins vegar var skoðað hvort nægilegar upplýsingar væru í samfélagsskýrslunum til að upplýsa fjárfesta og aðra notendur um hvernig fyrirtækin stæðu sig í að upplýsa um stöðu UFS þátta, þróun þeirra þátta, árangur og hvert stefnir. Rannsóknin sýnir að fyrirtæki eru almennt að nýta staðla við gerð samfélagsskýrslna sem auðveldar samanburð á milli fyrirtækja og tímabila, þó staðla megi betur notkun mælieininga í skýrslunum. Hvað staðfestingu á samfélagsskýrslum varðar, þá er hún ekki almenn sem minnkar áreiðanleika og trúverðugleika skýrslnanna. Almennt eru fyrirtæki að skýra vel frá stöðu og þróun UFS þátta í samfélagsskýrslum en mættu upplýsa betur um UFS markmið sín. Upplýsingar í samfélagsskýrslum nýtast fjárfestum og öðrum notendum til að átta sig á stöðu fyrirtækja í UFS málum og hver markmið þeirra eru. Ekki eru mörg ár síðan íslensk fyrirtæki byrjuðu að birta samfélagsskýrslur en fyrirséð er að mikilvægi þessarar upplýsingagjafar aukist á komandi árum bæði vegna aukinna krafna frá notendum skýrslnanna og eins löggjafanum. Rannsókn þessi getur nýst í umræðu um samfélagslega ábyrgð og hvernig upplýsingagjöf er háttað hjá íslenskum fyrirtækjum í þeim efnum. Rannsóknin er innlegg á sviði sem hefur ekki verið rannsakað mikið hér á landi.
Niðurhal
Útgefið
Hvernig skal vitna í
Tölublað
Kafli
Leyfi

Greinar í tímaritnu eru gefnar út undir leyfinu(Creative Commons Attribution-NonCommercial-ShareAlike 4.0 International License).

Útgefið efni tímaritsins er í opnum aðgangi samkvæmt skilmálum Creative Commons Attribution 4.0 License.