Áhrif kynjakvóta á stjórnarbrag að mati stjórnarmanna

Auður Arna Arnardóttir, Þröstur Olaf Sigurjónsson

Útdráttur


Ísland er eitt þeirra landa sem hefur lögleitt kynjakvóta í stjórnir fyrirtækja. Áhrif þessarar lagasetningar, sem í fræðunum kallast „hörð leið“, hafa takmarkað verið rannsökuð. Við lagasetninguna var tekist á um hvort kynjakvóti í stjórnum fyrirtækja myndi leiða til breyttra stjórnarhátta og hafa áhrif á samkeppnishæfni fyrirtækja. Þessi rannsókn hefur að markmiði að afla þekkingar á viðhorfi stjórnarmanna til upptöku kynjakvóta í stjórnum og viðhorfa þeirra til þess hver fyrstu áhrif á stjórnarbrag eru. Greind eru viðhorf stjórnarmanna til þess hvort stjórnarhættir og ákvarðanataka stjórna hafi breyst með tilkomu kynjakvóta og hvort stjórnir sinni aðhalds- og eftirlitshlutverki sínu með öðrum hætti en áður. Mælingar sem greint er frá í þessari rannsókn fóru fram árið 2014, einu ári eftir að lögin tóku að fullu gildi, og gefa því til kynna fyrstu áhrif lagasetningar að mati stjórnarmanna. Alls svöruðu 244 stjórnarmenn rafrænum spurningalista, 41% svarenda var kvenkyns. Niðurstaða rannsóknarinnar varpar ljósi á að karlkyns stjórnarmenn voru neikvæðari gagnvart kynjakvóta í stjórnum þegar lögin voru upphaflega samþykkt en dregið hafði úr þeim kynjamun þegar lögin höfðu tekið gildi. Niðurstöður sýna jafnframt að skömmu eftir lagasetninguna töldu stjórnarmenn almennt að kynjakvótinn hefði leitt til fjölbreyttari skoðanaskipta við stjórnarborðið og að ferlið við ákvarðanatöku stjórna sé betra en áður. Ofantalið var marktækt fremur skoðun stjórnarformanna, kvenkyns stjórnarmeðlima og þeirra sem jákvæðari voru gagnvart löggjöfinni um kynjakvóta þegar hún var upphaflega sett. Niðurstöður sýna jafnframt að stjórnarmenn telja að betri stjórnarhættir séu stundaðir eftir innleiðingu laganna. Niðurstöður sýna marktækan mun á skoðunum almennra stjórnarmanna til laganna annars vegar og formanna stjórna hins vegar þegar kemur að eftirlitshlutverki stjórna. Jafnframt eru kvenkyns stjórnarmenn ávallt marktækt jákvæðari í viðhorfum sínum gagnvart breytingum í kjölfar kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja en karlkyns stjórnarmenn.

Efnisorð


Kynjakvótar í stjórnum; fjölbreytileiki; eftirlitshlutverk; stjórnarhættir fyrirtækja.

Heildartexti:

PDF

JEL


M12; M14; G34.


DOI: https://doi.org/10.24122/tve.a.2022.19.1.4

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir


Útgefendur eru Viðskiptadeild Háskólans á Bifröst, Viðskiptafræðideild og Hagfræðideild Háskóla Íslands, Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík og Seðlabanki Íslands.

Creative Commons License
Útgefið efni tímaritsins er í opnum aðgangi samkvæmt skilmálum Creative Commons Attribution 4.0 License.

Kerfið er vistað af Reiknistofnun Háskólans.