Skipan og óhæði endurskoðunarnefnda

Eyvindur G. Gunnarsson, Hersir Sigurgeirsson

Útdráttur


Endurskoðunarnefndir gegna mikilvægu hlutverki í að tryggja áreiðanleika og óhæði endurskoðunar fyrirtækja. Eitt af meginmarkmiðum með starfsemi nefndanna er að draga úr hættu á fjármálamisferli og efla traust fjárfesta á fjárhagsupplýsingum fyrirtækja og þar með fjármálamörkuðum. Í greininni eru annars vegar birtar niðurstöður rannsóknar á samsetningu endurskoðunarnefnda við einingar tengdar almannahagsmunum á Íslandi og hins vegar eru tiltekin ákvæði laga um endurskoðunarnefndir skýrð með hliðsjón af ESB-rétti. Óvissa hefur verið um túlkun ákvæða um óhæði nefndarmanna í endurskoðunarnefnd en í greininni er það skýrt að mat á óhæði þeirra er sambærilegt hefðbundnu mati á óhæði stjórnarmanna. Sér í lagi geta stjórnarmenn talist óháðir einingunni í skilningi laganna og þar með skipað meirihluta endurskoðunarnefndar. Á Íslandi er algengt að stjórn skipi einn eða fleiri nefndarmenn utan stjórnar í endurskoðunarnefnd og eru nefndarmenn utan stjórnar í 63 af 70 endurskoðunarnefndum. Ekki er gert ráð fyrir þessu fyrirkomulagi í ESB-rétti eða lögum annarra Norðurlanda. Í greininni eru færð rök fyrir því að hin íslenska framkvæmd veiki bæði sjálfstæði og umboð nefndarmanna. Æskilegt er að endurskoðunarnefnd sé eingöngu skipuð stjórnarmönnum, ef þess er kostur, en rétt er þó að innleiða í lög heimild til að hluthafafundur tilnefni nefndarmenn, eins og ESB-réttur gerir ráð fyrir. Ekki er starfandi endurskoðunarnefnd í 32 einingum tengdum almannahagsmunum. Innleiða ætti í lög, eða skýra betur, undanþáguheimildir frá starfrækslu endurskoðunarnefndar, sérstaklega að því er varðar dótturfélög, verðbréfasjóði og sveitarfélög.

Efnisorð


Endurskoðun; endurskoðunarnefnd; óhæði; eining tengd almannahagsmunum.

Heildartexti:

PDF

JEL


K22; M42.


DOI: https://doi.org/10.24122/tve.a.2021.18.1.5

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir


Útgefendur eru Viðskiptadeild Háskólans á Bifröst, Viðskiptafræðideild og Hagfræðideild Háskóla Íslands, Viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík og Seðlabanki Íslands.

Creative Commons License
Útgefið efni tímaritsins er í opnum aðgangi samkvæmt skilmálum Creative Commons Attribution 4.0 License.

Kerfið er vistað af Reiknistofnun Háskólans.