Innleiðing jafnlaunakerfis hjá skipulagsheildum: Stuðningur, hindranir og næstu skref

Guðbjörg Ingunn Óskarsdóttir, Ragna Kemp Haraldsdóttir

Útdráttur


Ísland er fyrsta þjóðin til að lögfesta jafnlaunastaðal en tilgangur hans er að koma á og viðhalda launajafnrétti kynja á vinnustað. Samkvæmt lögunum ber vinnustöðum að fá jafnlaunavottun að undangenginni úttekt. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvernig skipulagsheildir sem hlotið höfðu jafnlaunavottun hefðu staðið að innleiðingu jafnlaunakerfis í samræmi við kröfur jafnlaunastaðalsins. Tilgangurinn var að varpa ljósi á hvaða þættir reyndust styðja við innleiðingarferlið og hverjar væru helstu hindranir. Þá var kannað hvernig skipulagsheildum gekk að mæta auknum kröfum um skjalfestingu gagna samhliða innleiðingu. Rannsóknin byggist á eigindlegri aðferðafræði. Tekin voru tíu hálfstöðluð viðtöl, níu þeirra við sérfræðinga innan sex skipulagsheilda og eitt við úttektaraðila. Þá var höfð til samanburðar textagreining á kröfum ÍST 85:2012 til skjalfestingar og erindum í 437. þingmáli um lögfestingu jafnlaunakerfis frá 146. löggjafarþingi 2017-2018. Niðurstöður benda til þess að innleiðing jafnlaunastaðals hafi styrkt annað gæðastarf og öfugt. Þannig virtust skipulagheildir sem þegar höfðu innleitt gæðastaðla og/eða unnu skilvirkt að skjalastjórn hafa forskot á aðrar. Styrkur þeirra fólst í sérþekkingu starfsfólks á sviði mannauðsmála, gæðamála og skjalamála sem og formföstu umhverfi sem var vel undirbúið fyrir innleiðingu gæðastaðals. Með innleiðingu jafnlaunakerfis komust á agaðri vinnubrögð og aukið gagnsæi í launasetningu. Skjalfesting ýmissa mannauðsgagna jókst í samræmi við kröfur jafnlaunastaðals. Niðurstöður leiddu einnig í ljós að helstu hindranir við innleiðingu voru tímaskortur og aukið vinnuálag. Starfaflokkun reyndist að auki tímafrek og var ekki studd af íslenskri starfaflokkun ÍSTARF95. Þá komu fram gagnrýnisraddir sem beindust að lögleiðingu jafnlaunastaðals almennt sem og að eftirlitsaðilum sem skorti fjármagn og mannafla til að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Það er áhyggjuefni því að fjölmargir vinnustaðir eiga eftir að innleiða staðalinn fyrir lok árs 2022.

Efnisorð


Jafnlaunastaðall; gæðastjórnun; upplýsinga- og skjalastjórn; innleiðing; lögbundnir eftirlitsaðilar.

Heildartexti:

PDF

JEL


D63; J16; J30; J71; L15; M10; M52.


DOI: https://doi.org/10.24122/tve.a.2021.18.1.2

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir


Útgefendur eru Viðskiptadeild Háskólans á Bifröst, Viðskiptafræðideild og Hagfræðideild Háskóla Íslands, Viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík og Seðlabanki Íslands.

Creative Commons License
Útgefið efni tímaritsins er í opnum aðgangi samkvæmt skilmálum Creative Commons Attribution 4.0 License.

Kerfið er vistað af Reiknistofnun Háskólans.