Vellíðan á vinnustað; helgun, starfsánægja og löngun til að hætta í starfi

Hjördís Sigursteinsdóttir

Útdráttur


Gott starfsumhverfi stuðlar að aukinni vellíðan á vinnustað og góðum starfsanda. Vellíðan í vinnu tengist upplifun starfsfólks á því að starf þeirra sé mikilvægt og gefandi. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða helgun í starfi, starfsánægju og löngun til að hætta í starfi meðal starfsfólks íslenskra sveitarfélaga. Settar voru fram fimm rannsóknarspurningar: (1) Hvað mælist helgun há meðal starfsfólksins? (2) Hvað mælist starfsánægja mikil meðal starfsfólksins? (3) Hversu hátt hlutfall starfsfólksins hugsar um að hætta í núverandi starfi? (4) Hvernig tengjast helgun í starfi, starfsánægja og löngun til að hætta í starfi? (5) Er starfsánægja og löngun til að hætta í starfi frábrugðin eftir því hvort starfsfólk sé helgað í starfi, ekki helgað eða andsnúið í starfi? Rannsóknin byggir á rafrænni spurningalistakönnun sem lögð var fyrir starfsfólk 17 sveitarfélaga á haustdögum 2015. Það voru 8.942 manns sem fengu spurningalistann sendan í tölvupósti og eftir tvær ítrekanir höfðu 5458 þeirra svarað spurningalistanum (svarhlutfall 61%). Niðurstöðurnar sýna að helgun í starfi mældist 3,7 af 5,0 mögulegum og túlka má niðurstöður helgunar þannig að tæplega þriðjungur starfsfólksins var helgað í starfi, 63% var ekki helgað og 5% starfsfólksins var andsnúið. Starfsánægja mældist 4,1 og rúmur fjórðungur starfsfólksins var mjög eða frekar sammála því að hugsa oft um að hætta í núverandi starfi. Niðurstöðurnar sýna jafnframt jákvæð sterk tengsl milli helgunar í starfi og starfsánægju og jákvæð miðlungs sterk tengsl milli helgunar og löngunar til að hætta í starfi. Þetta þýðir að eftir því sem starfsfólk var meira helgað því meiri ánægju hafði það af starfinu og löngun til að hætta í starfi var minni. Ljóst er á þessum niðurstöðum að almennt séð þá líður starfsfólki sveitarfélaganna ekki nægilega vel á vinnustaðnum. Niðurstöðurnar gefa þó góðar vísbendingar um hvaða þætti stjórnendur þurfa að taka til athugunar til að bæta starfsaðstæður og starfsumhverfið starfsfólkinu til heilla.

Efnisorð


Helgun í starfi; starfsánægja; löngun til að hætta í starfi; vellíðan í starfi.

Heildartexti:

PDF

JEL


J28; J81; M12; M14.


DOI: https://doi.org/10.24122/tve.a.2020.17.1.3

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir


Útgefendur eru Viðskiptadeild Háskólans á Bifröst, Viðskiptafræðideild og Hagfræðideild Háskóla Íslands, Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík og Seðlabanki Íslands.

Creative Commons License
Útgefið efni tímaritsins er í opnum aðgangi samkvæmt skilmálum Creative Commons Attribution 4.0 License.

Kerfið er vistað af Reiknistofnun Háskólans.