Samskipti án orða. Tengsl óyrtrar hegðunar yfirmanns og tilfinningalegrar líðan starfsfólks

Hildur Vilhelmsdóttir, Auður Hermannsdóttir

Útdráttur


Líðan starfsfólks getur haft rekstrarleg áhrif á fyrirtæki og því er mikilvægt fyrir stjórnendur að leggja áherslu á að starfsfólki líði vel. Yfirmenn geta aukið líkur á því með því að leggja áherslu á að eiga í góðum samskiptum við það. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tengsl á milli upplifunar af óyrtum samskiptum yfirmanns og tilfinningalegri líðan starfsfólks. Einblínt var á þrjár gerðir tilfinningalegrar líðan sem eru mikilvægar þegar kemur að líðan starfsfólks í vinnu; tilfinningalegan stuðning, tilfinningalega vinnu og tilfinningalegt gildi. Í gegnum rafrænt hentugleikaúrtak fengust svör frá 802 einstaklingum á vinnumarkaði. Niðurstöðurnar sýndu að upplifun á óyrtum samskiptum yfirmanna hefur jákvæð tengsl við tilfinningalegan stuðning sem felst m.a. í því að yfirmenn séu aðgengilegir og hlusti á starfsfólk. Upplifun á jákvæðum óyrtum samskiptum yfirmanna reyndist jafnframt draga úr skynjun starfsfólks á tilfinningalegri vinnu en slík vinna getur verið óæskileg og haft neikvæð áhrif á starfsfólk. Að auki sýndu niðurstöðurnar að skynjun starfsfólks á tilfinningalegu gildi er jákvæðara ef það upplifir jákvæð óyrt samskipti frá yfirmanni sínum, en fyrri rannsóknir hafa sýnt að jákvætt tilfinningalegt gildi hefur jákvæð áhrif á starfsánægju og leiðir til jákvæðrar hegðunar inni á vinnistöðum. Miðað við niðurstöður rannsóknarinnar eru það fyrst og fremst óyrt samskipti sem snúa að andlitstjáningu og líkamstjáningu sem skýra tilfinningalega líðan starfsfólks. Yfirmenn ættu því að leggja áherslu á að halda augnsambandi við starfsfólk sitt þegar samskipti eiga sér stað og sýna jákvæð svipbrigði eins og bros. Jafnframt ætti að leggja áherslu á afslappaða en líflega líkamsstöðu, t.d. með því að nota hendurnar þegar talað er. Rannsóknin styrkir fræðilegar undirstöður varðandi samskipti á vinnustað og veitir innsýn í lítið rannsakað viðfangsefni á sviði stjórnunar.

Efnisorð


Óyrt samskipti, starfsfólk tilfinningaleg líðan, tilfinningalegur stuðningur, tilfinningaleg vinna, tilfinningalegt gildi.

Heildartexti:

PDF

JEL


M12, M54, D9.


DOI: https://doi.org/10.24122/tve.a.2019.16.2.5

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir


Útgefendur eru Viðskiptadeild Háskólans á Bifröst, Viðskiptafræðideild og Hagfræðideild Háskóla Íslands, Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík og Seðlabanki Íslands.

Creative Commons License
Útgefið efni tímaritsins er í opnum aðgangi samkvæmt skilmálum Creative Commons Attribution 4.0 License.

Kerfið er vistað af Reiknistofnun Háskólans.