Endurskoðunarnefndir: Samsetning og góðir stjórnarhættir

Einar Guðbjartsson, Eyþór Ívar Jónsson, Jón Snorri Snorrason

Útdráttur


Tilgangur greinarinnar er að skoða samsetningu endurskoðunarnefnda m.t.t. markvirkni. Áhersla er lögð á að skoða fjölbreytni, sérfræðiþekkingu og óhæði nefndarmanna. Engar rannsóknir hafa verið gerðar á endurskoðunarnefndum á Íslandi sem miða að því að skoða þætti eins og samsetningu nefnda m.t.t. markvirkni endurskoðunarnefnda. Þar af leiðandi voru þrjár tilgátur settar fram til þess að meta hversu líklegt er að endurskoðunarnefndir íslenskra fyrirtækja séu markvirkar. Tilgáturnar miða að því að skoða samsetningu (e. composition) endurskoðunarnefnda á Íslandi með tilliti til markvirkni þeirra. Samsetning er ein þriggja vídda sem verða að vera til staðar til að markvirkni náist.
Bornar eru saman tvær kannanir, annars vegar frá 2012 og hins vegar frá 2016. Framkvæmd kannananna 2012 og 2016 er með sambærilegum hætti og skapast því góður grunnur fyrir samanburð. Einnig er skoðað hvort einhver munur sé á niðurstöðum úr hvorri rannsókn fyrir sig og samanburður er gerður.
Tilgangur endurskoðunarnefnda er að tryggja að gæði og áreiðanleiki fjárhagsskýrslna og fjárhagsupplýsinga sé sem mestur, hvort sem um er að ræða skýrslur til stjórnenda félagsins eða til hagsmunaaðila utan félagsins. Tilvist endurskoðunarnefnda tengist því beint góðum stjórnarháttum. Umgjörð og fyrirkomulag endurskoðunarnefnda hefur mikið að segja um hvort þessum tilgangi verði náð eða ekki.
Í lögum um ársreikninga nr. 3/2006 er kveðið á um að stjórn viðkomandi einingar sem tengist almannahagsmunum skipi nefndarmenn í endurskoðunarnefnd. Skipunarferli er því mjög mikilvægt og er hluti af góðum stjórnarháttum. Endurskoðunarnefnd fer með hluta af þeim verkefnum sem stjórn hafði áður á sínu borði og tengist því beint góðum stjórnarháttum í fyrirtækjum í gegnum verkefni stjórnar. Kannanirnar 2012 og 2016 voru gerðar meðal stærstu fyrirtækja og stofnana landsins sem falla undir skilgreininguna „einingar tengdar almannahagsmunum”, sbr. lög nr. 79/2008 um endurskoðendur.
Rannsóknin bendir til þess að fjölbreytni og sérfræðiþekking hvað varðar samsetningu endurskoðunarnefnda á Íslandi sé viðundandi. Hins vegar er misræmi í niðurstöðum rannsóknarinnar þegar kemur að því að meta óhæði nefndarmanna. Engu að síður má álykta að samsetning endurskoðunarnefnda á Íslandi stuðli að markvirkara starfi þeirra. Samsetning er einn af þremur þáttum er stuðla að markvirkni. Þetta er grundvallaratriði í að skipuleggja og byggja upp starf endurskoðunarnefnda í eftirlitskerfi góðra stjórnarhátta út frá umboðskenningunni.

Efnisorð


Endurskoðunarnefndir; góðir stjórnarhættir fyrirtækja; einingar tengdar almannahagsmunum; umboðskenningin; reikningsskil; endurskoðun; lög um ársreikninga.

Heildartexti:

PDF

JEL


M140; M420; K220.


DOI: https://doi.org/10.24122/tve.a.2018.15.2.5

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir


Útgefendur eru Viðskiptadeild Háskólans á Bifröst, Viðskiptafræðideild og Hagfræðideild Háskóla Íslands, Viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík og Seðlabanki Íslands.

Creative Commons License
Útgefið efni tímaritsins er í opnum aðgangi samkvæmt skilmálum Creative Commons Attribution 4.0 License.

Kerfið er vistað af Reiknistofnun Háskólans.